Tónlistarfélagið

logoNú stendur yfir skráning í Tónlistarfélagið, hollvinasamtök Tónlistarskólans í Reykjavík. Okkur þætti vænt um að þið mynduð sýna okkur þann heiður að ganga í félagið og sýna þar með Tónlistarskólanum stuðning í orði og í verki. Þeir sem hafa áhuga á að ganga í félagið vinsamlega sendið upplýsingar um nafn, kennitölu, netfang og heimilsfang á netfangið freyja@tono.is.

Um árabil stóð Tónlistarfélagið í Reykjavík fyrir margháttaðri tónlistarstarfsemi og var helsti tónleikahaldari hér á landi á sínu sviði.  Stóð félagið fyrir komu margra stórkostlegra tónlistarmanna sem auðguðu verulega íslenska menningu og verður hlutur félagsins og þeirra sem þar voru í fyrirsvari í kynningu á sígildri tónlist ugglaust seint fullþakkaður.  Félagið var stofnað af 12 athafnamönnum í Reykjavík, sem gjarnan hafa verið kallaðir postularnir, en þeir og fleiri sem að þessu komu, unnu mikið og óeigingjarnt starf.  Nú síðustu ár hefur Tónlistarfélagið í Reykjavík einbeitt sér að upphaflegu markmiði sínu, þ.e. að styðja við bakið á Tónlistarskólanum í Reykjavík, meðal annars með því að leggja skólanum til húsnæði sitt og standa að baki honum eins og því er kostur, en sífellt þarf að huga að viðhaldi og endurnýjun á hljóðfærum og búnaði, svo skólinn haldi sess sínum á sviði tónlistarkennslu hér á landi.

Nú hefur verið ákveðið að gefa nýrri kynslóð áhugamanna um sígilda tónlist og tónlistarmenningu kost á að gerast félagar í Tónlistarfélaginu í Reykjavík og verða þannig þátttakendur í verkefnum félagsins og stuðningsaðilar Tónlistarskólans í Reykjavík. Er nú verið að skrá áhugasama aðila á félagaskrá og eru allir sem hug hafa á og láta sig málefnið varða boðnir velkomnir.  Á móti er ráðgert að Tónlistarskólinn í Reykjavík muni bjóða reglulega til styrktartónleika þar sem þeir félagsmenn sem það vilja geta fengið að njóta þess mikla árangurs sem skólinn og nemendur hans hafa náð á tónlistarsviðinu. Við hvetjum alla til að taka höndum saman, ganga til liðs við Tónlistarfélagið í Reykjavík og standa vörð um góða og metnaðarfulla  tónlistarmenntun. Fyrstu tónleikarnir sem Tónlistarfélagið mun standa fyrir nú eru hljómsveitartónleikar Tónlistarskólans í Reykjavík í Hörpu þann 2. mars 2014. Félagsgjöldum er stillt í hóf og eru 4000 kr. á ári og munu félagar að sjálfsögðu fá boð á alla þá opinberu tónleika sem að Tónlistarskólinn stendur fyrir.