Sigrún Hjálmtýsdóttir

Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar.

Síðar hóf hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and Drama í London og stundaði framhaldsnám á Ítalíu.

Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum, jafnt á sviði sem og í kvikmyndum. Frumraun sína á óperusviði þreytti hún í hlutverki dúkkunnar Olympiu í”Ævintýri Hoffmanns”.Önnur verkefni hennar hjá Íslensku Óperunni eru hlutverk: Súsönnu í “Brúðkaupi Fígarós”, Gildu í “Rigólettó”, Lúsíu í “Lucia di Lammermoor”, Papagenu og Næturdrottningarinnar í “Töfraflautunni”, Víolettu í “La Traviata”, Adínu í “Ástardrykknum, Rósalindu í “Leðurblökunni” Freyju, Helmwige og Skógarfuglinn í uppfærslu á “Niflungahringnum” sem fluttur var á Listahátíð í Reykjavík og hlutverk Katie í  “Le Pays”, sem einnig var flutt á Listahátíð.

Sigrún söng hlutverk Næturdrottningarinnar í “Töfraflautunni” haustið 2011 og var það fyrsta uppfærsla Ísl. Óperunnar í Hörpu. Hún var valin söngkona ársins 2011 fyrir það hlutverk.

Sigrún hefur á löngum ferli margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem og erlendum hljómsveitum víða um heim.

Með S.Í. hefur hún hljóðritað 4 einsöngsplötur, en alls hefur hún sungið inná marga tugi platna gegnum árin.

Hún söng á eftirminnilegum tónleikum í Laugardalshöll með José Carreras og steig á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll.

Sigrún hefur haldið tónleika víða um heim,t.d. í Kína hvar hún hélt tónleika sl. haust í EGGINU í Peking ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, hún hefur  sungið í Japan, Kanada, U.S.A.,Rússlandi, Balkanlöndunum, Norðurlöndunum,Frakklandi, Ítalíu, Slóvaníu, Ausurríki og nánast allsstaðar, nema í Þýskalandi!

Árið 1995 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og árið 1997 Ljónaorðu Finnska ríkisins.

← Til baka í kennarayfirlit