Freyja Gunnlaugsdóttir

Freyja Gunnlaugsdóttir er fædd árið 1979 í Reykjavík. Hún stundaði nám hjá Kjartani Óskarsyni við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan vorið 1999. Sama haust hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Berlín (Hochschule für Musik Hanns Eisler) og lauk þaðan magistersprófi í klarínettuleik vorið 2005 með fyrstu einkunn. Tveimur árum síðar þreytti hún svokallað “Konzertexamen” við einleikaradeild Hanns Eisler-tónlistarháskólans. Kennari hennar var Karlheinz Steffens, fyrrum sólóklarínettuleikari við Berlínarfílharmóníuna.

Freyja hefur leikið með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum, svo sem Berliner Symphoniker, Staatsorchester Frankfurt, Komische Oper (Berlin) og Theatro de la Opera (Madrid). Einnig lék hún á klarínettu við leikhúsin Deutsches Theater og Volksbühne í Berlín. Freyja hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum á borð við Pólsku kammersveitina, Berliner Symphoniker, Preussische Kammerorchester og Ensemble für neue Musik Berlin. Sumarið 2009 kom Freyja fram sem einleikari í klarínettukonsert Mozarts á þýsk-íslenskri listahátíð í Berlín. Freyja hefur frumflutt fjöldann allan af einleiksverkum fyrir klarínettu, meðal annars eftir Konstantiu Gourzi, Allessandro Solbiati, Luca Franscesconi, Sigfried Mattus, Amos Elkana og Atla Heimi Sveinsson. Hún hefur einnig unnið með myndlistarmönnum á borð við Bruce Naumann og Alexander Polzin. Freyja var Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2010.

Haustið 2007 kom út geisladiskurinn Un brin de bruyére hjá ítalska útgáfufyrirtækinu Stradivarius þar sem Freyja leikur samtímatónlist með semballom- leikaranum Luigi Gaggero. Vorið 2010 stofnaði Freyja útgáfufélagið “Tjara” í Berlín og hefur hún gefið út geisladiska undir merkjum þess, Kviðu vorið 2010 og Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra, söngva eftir Ása í Bæ og Oddgeir Kristjánsson. Árið 2012 kom út Geisladiskurinn Skrímsli þar sem að Freyja leikur einleiksverk fyrir klarínettu.
Freyja sér um listræna stjórnun á tónlistarhátíðinni Samos young artist festival á Grikklandi sumarið 2013 og er ráðin aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskólann í Reykjavík skólaárið 2013-2014.

← Til baka í kennarayfirlit