Anna Guðný Guðmundsdóttir

Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 þar sem kennarar hennar voru Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir, en þangað kom hún úr Barnamúsíkskólanum þar sem Stefán Edelstein var kennari hennar.   Hún stundaði Post Graduate-nám við Guildhall School of Music í Lundúnum.

Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari.  Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík, svo og innan Tíbrár tónleikaraðarinnar í Salnum í Kópavogi.  Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum.  Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum þeirra í yfir 20 ár og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus.  Fyrstu hljómsveitarreynsluna hlaut hún í Íslensku hljómsveitinni sem starfaði í um áratug frá 1983.    Hún vann við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2009 sem flytjandi ársins. Anna Guðný kom í sumar fram á Reykjavík Midsummer Music hátíðinni í Hörpu;  Kammertónleikum Kirkjubæjarklaustri svo og á Reykholtshátíðinni.  Hún lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í júní 2013 og á Menningarnótt í ágúst 2013.

 

← Til baka í kennarayfirlit