Nýr Menntaskóli í tónlist

Tónlistarskólinn í Reykjavík stendur nú á tímamótum og hefur í samstarfi við Tónlistarskóla FÍH stofnað nýjan Menntaskóla í tónlist sem hefur nýverið fengið viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins sem framhaldsskóli. Skólinn tekur til starfa haustið 2017.  Boðið er upp á nám í bæði klassíski og rytmískri tónlist (jazz, popp og rokktónlist).

Skólinn býður upp á nýjar og áhugaverðar námsleiðir í tónlist og geta nemendur lokið  stúdentsprófi með tónlist sem aðalnámsgrein. Skólinn hentar þó einnig vel nemendum sem stunda nám við aðra framhaldsskóla en vilja stunda áhugavert tónlistarnám á framhaldsstigi.

Námsframboð er sérlega mikið og fjölbreytt. Nemendur geta valið námskeið af ólíkum sviðum tónlistar og mótað námið að sínu áhugasviði og framtíðaráformum. Námið er góður undirbúningur undir margskonar nám og störf í tónlist. Að námi loknu ættu nemendur að vera vel undirbúnir til að takast á við háskólanám í tónlist eða taka að sér tónlistartengd störf.

Nánar má lesa um skólann á menton.is