Kynning á MÍT í Laugardalshöll

Verið velkomin á kynningu á Menntaskóla í tónlist, MÍT, í Laugardalshöll:

Fim. 16. mars kl. 8:45-15:15

Föst 17. mars kl. 8:45-15:15

Lau. 18. mars kl. 10:00-14:00

Búið að opna fyrir umsóknir vegna 2017-2018

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir vegna skólaársins 2017-2018 og er umsóknarfrestur til og með 21.apríl.

Frá og með hausti 2017 verða þær breytingar á skólastarfinu að framhaldsnám í hljóðfæraleik og söng og miðnám í söng verður kennt í Menntaskóla í tónlist, MÍT. Sótt er um námið hér:  http://menton.is/index.php/umsoknir/

Grunn- og miðnám í hljóðfæraleik og grunnnám í söng verður kennt í nánu samstarfi  við Tónmenntaskóla Reykjavíkur  og mun hluti kennslunnar fara fram í húsnæði Tónmenntaskólans við Lindargötu. Sótt er um námið á Rafrænni Reykjavík og Tónlistarskólinn í Reykjavík valinn sem fyrsta val:
https://rafraen.reykjavik.is/pages/notandi/umsoknir/umsoknumtonlistarskola

Með þessum breytingum vonumst við ekki aðeins til að geta boðið upp á öflugra og fjölbreyttara nám á framhaldsstigum tónlistar heldur verður einnig markvisst unnið að uppbyggingu tónlistarnáms á neðri stigum með það fyrir augum að veita yngi nemendum gæðakennslu frá fyrstu tíð undir handleiðslu góðra kennara og starfandi listamanna.

Nýr Menntaskóli í tónlist

Tónlistarskólinn í Reykjavík stendur nú á tímamótum og hefur í samstarfi við Tónlistarskóla FÍH stofnað nýjan Menntaskóla í tónlist sem hefur nýverið fengið viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins sem framhaldsskóli. Skólinn tekur til starfa haustið 2017.  Boðið er upp á nám í bæði klassíski og rytmískri tónlist (jazz, popp og rokktónlist).

Skólinn býður upp á nýjar og áhugaverðar námsleiðir í tónlist og geta nemendur lokið  stúdentsprófi með tónlist sem aðalnámsgrein. Skólinn hentar þó einnig vel nemendum sem stunda nám við aðra framhaldsskóla en vilja stunda áhugavert tónlistarnám á framhaldsstigi.

Námsframboð er sérlega mikið og fjölbreytt. Nemendur geta valið námskeið af ólíkum sviðum tónlistar og mótað námið að sínu áhugasviði og framtíðaráformum. Námið er góður undirbúningur undir margskonar nám og störf í tónlist. Að námi loknu ættu nemendur að vera vel undirbúnir til að takast á við háskólanám í tónlist eða taka að sér tónlistartengd störf.

Nánar má lesa um skólann á menton.is

Rússnesk meistarverk á hljómsveitartónleikum 8. mars

Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík heldur tónleika í Norðurljósum, Hörpu mið. 8. mars kl. 19:30. Efnisskráin er stórglæsileg og samanstendur af Khovanshchina forleiknum eftir M. Mussorgsky, Sellókonsert nr. 1 op. 107 eftir D. Shostakovich og völdum þáttum úr Rómeó og Júlíu eftir  S. Prokofiev. Einleikari á selló er Hjörtur Páll Eggertsson en hann vann einleikarakeppni sem haldin var innan skólans. Stjórnandi er Joseph Ognibene.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

 

Stofnun Menntaskóla í tónlist fagnað

Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli FÍH halda sameiginlega tónleika í Kaldalóni í Hörpu sunnudaginn 19. feb. kl: 14:00. Á tónleikunum verður kynntur nýr Menntaskóli í tónlist og boðið verður upp á fjölbreytta og glæsilega efnisskrá. Þar koma fram stórsveit, kammerkór, strengjakvartett, brasshópur, söngvarar og fleiri áhugaverðir samspilshópar sem flytja verk úr ýmsum tónlistarstefnum.

Með stofnun Menntaskóla í tónlist taka tveir af öflugustu tónlistarskólum landsins höndum saman um að þróa nýjar og áhugaverðar leiðir í tónlistarnámi. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í rytmískri (jazz, popp og rokktónlist) og klassískri tónlist og verður hægt að ljúka stúdentsprófi frá skólanum með tónlist sem aðalnámsgrein.

Hægt er að kynna sér starfsemi skólans á nýrri vefsíðu hans: www.menton.is
og kynna sér námið nánar á tónleikunum á sunnudag.