Óperuppfærsla 17. – 20. apríl

Í „Hliðarsporum“ nýrri óperu eftir Þórunni Guðmundsdóttur hittum við aftur persónur sem margir þekkja úr „Brúðkaupi Figarós“. Söguþráðurinn er byggður á síðasta leikritinu í þríleik Beaumarchais, sem skrifaði fyrst „Rakarann frá Sevilla“, síðan „Brúðkaup Figarós“ og loks leikrit sem hann nefndi „Hin seka móðir“. Í óperunni eru tuttugu ár liðin frá brúðkaupi þeirra Figarós og Súsönnu og ýmislegt hefur gerst í millitíðinni. Bæði greifinn og greifynjan hafa misstigið sig og þurfa bæði þau og ávextir þessara hliðarspora að taka afleiðingunum af því. Skúrkurinn Krapp ætlar að notfæra sér aðstæðurnar, en Figaró og Súsanna reyna að leiða allt til lykta á farsælan hátt. Flytjendur eru nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík, 20 söngvarar og 9 manna hljómsveit. Stjórnandi er Kjartan Óskarsson.

Sýningar verða í Iðnó 17., 18. og 20. apríl og hefjast þær allar kl. 20.00. 

Allir kennarar og nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík fá einn boðsmiða en hægt er að kaupa miða á midi.is

Burtfarar- og framhaldsprófstónleikar vor 2017

Birkir Örn Hafsteinsson, klarínetta
Framhaldspróf – þri. 4. apríl kl. 20:00 í Hannesarholti

Ingibjörg Ragnheiður Linnet, trompet
Framhaldspróf – lau. 22. apríl kl. 14:00 í Safnahúsinu

Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóla
Framhaldspróf – sun. 30. apríl kl. 17:30 Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar

Þórir Hermann Óskarsson, píanó
Framhaldspróf – mán. 1. maí kl. 17:00 í Safnahúsinu

Iðunn Kristínardóttir, klarínetta
Framhaldspróf – lau. 6. maí kl. 14:00 í Safnahúsinu

Fídel Atli Quintero Gasparsson, víóla
Framhaldspróf – sun. 7. maí kl. 14:00 í Hannesarholti

Símon Karl Sigurðarson, klarínetta
Burtfararpróf  – Mið. 10. maí kl. 20:00 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar

Lilja Margrét Riedel, söngur
Kveðjutónleikar – fös. 12. maí kl. 18:00 í Laugarneskirkju

Bryndís Eva Erlingsdóttir, söngur
Framhaldspróf – lau. 13. maí kl. 15:30 í Guðríðarkirkju

Hjörtur Páll Eggertsson, selló
Framhaldspróf – lau. 13. maí kl. 17:30 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 

Skráning fyrir skólaárið 2017-2018

Umsóknarfrestur vegna skólaársins 2017-2018 og er til og með 21.apríl.

Frá og með hausti 2017 verða þær breytingar á skólastarfinu að framhaldsnám í hljóðfæraleik og söng og miðnám í söng verður kennt í Menntaskóla í tónlist, MÍT. Sótt er um námið hér:  http://menton.is/index.php/umsoknir/

Grunn- og miðnám í hljóðfæraleik og grunnnám í söng verður kennt í nánu samstarfi  við Tónmenntaskóla Reykjavíkur  og mun hluti kennslunnar fara fram í húsnæði Tónmenntaskólans við Lindargötu. Sótt er um námið á Rafrænni Reykjavík og Tónlistarskólinn í Reykjavík valinn sem fyrsta val: https://rafraen.reykjavik.is/pages/notandi/umsoknir/umsoknumtonlistarskola

Með þessum breytingum vonumst við ekki aðeins til að geta boðið upp á öflugra og fjölbreyttara nám á framhaldsstigum tónlistar heldur verður einnig markvisst unnið að uppbyggingu tónlistarnáms á neðri stigum með það fyrir augum að veita yngi nemendum gæðakennslu frá fyrstu tíð undir handleiðslu góðra kennara og starfandi listamanna.

Úrslit úr einleikaraprufuspili

Úrslit úr prufuspili til að koma fram sem einleikari með sinfóníuhljómsveit MÍT liggja nú fyrir og voru það Ingibjörg Ragnheiður Linnet, trompetnemandi og  Júnía Lín Jónsdóttir, fiðlunemandi sem báru sigur úr býtum. Þær munu munu leika Trompetkonsert í As-dúr eftir A. Arutiunian og Fiðlukonsert op. 82 eftir A. Glazunov með hljómsveitinni á haustönn 2017.

Við óskum Ingibjörgu og Júníu innilega til hamingju.

Aldarminning – Björn Ólafsson fiðluleikari

Sunnudaginn 26. mars kl.14.00 verða haldnir strengjasveitartónleikar í Neskirkju. Þar leiða saman hesta sína nemendur úr tónlistardeild Listaháskóla Íslands og úr Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Tónleikarnir verða helgaðir minningu Björns Ólafssonar fiðlukeikara, en öld var liðin frá fæðingu hans þann 26. febrúar sl. Björn var einn af helstu máttarstólpum í íslensku tónlistarlífi fyrir og eftir miðja síðustu öld. Hann var konsertmeistari í Hljómsveit Reykjavíkur og síðan var hann ráðinn fyrsti konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun hennar árið 1950 til ársins 1972. Hann kenndi jafnframt fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og veitti strengjadeild skólans forystu frá 1939 til 1975. Björn lést árið 1984 eftir langvarandi erfið veikindi.

Á efnisskrá tónleikanna verða fluttir tveir þættir ú einleikssónötu í g-moll eftir J.S.Bach, umrituð fyrir fiðlukór. Divertimento í D-dúr KV.136 eftir W. A.Mozart, en þetta verk var iðulega á dagskrá hjá Birni Ólafsyni þegar hann stýrði Nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Að lokum verður fluttur hinn viðamikli og glæsilegi Concerto Grosso nr.1 eftir Ernest Bloch. Píanóleikari í því verki er Anela
Bakraqi.

Stjórnandi tónleikanna verður Guðný Guðmundsdóttir fiðlukeikari, einn af fjöldamörgum nemendum Björns og fyrrverandi fyrsti konsertmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.